Upplýsingar varðandi nýsmíði Herjólfs

18.03.2015
 Í ljósi umræðu síðustu mánaða um nýsmíði Herjólfs, Landeyjahöfn og núverandi skip þykir mér mikilvægt að árétta þær upplýsingar sem komið hefur verið á framfæri til mín sem bæjarfulltrúa sitjandi í bæjarráði og bæjarstjórn.

Á undanförnum mánuðum hefur endurtekið verið farið yfir samgöngumál í Vestmanneyjum. Minnisblöð verið lögð fram, haldnir fundir með aðilum sem þekkja til og unnið hafa við málið í áraraðir.

Staðreyndir

Það er búið að byggja Landeyjahöfn. Núverandi Herjólfur hefur siglt þangað um 230-240 daga á ári síðustu þrjú ár sem er um 2/3 hluta ársins. Herjólfur er 23 ára.

Upplýsingar sem liggja fyrir

Ekki er langt síðan að hönnuðir nýrrar Vestmannaeyjaferju áttu fund með bæjarfulltrúum og í framhaldinu var svo haldinn borgarafundur til að kynna stöðu mála.

Aukin flutningsgeta

Aðalatriðin voru þau að flutningsgeta nýsmíðinnar gæti verið mun meiri fyrir minni pening. Flutningsgetan yrði meiri í ferð og hægt að sigla fleiri ferðir þar sem að rekstrarkostnaðurinn yrði mun minni m.a. vegna minni olíukostnaðar, en vélar skipsins verða nýjar og notuð ,,hybrid“ tækni. Til að einfalda málið er þetta bara eins og munurinn á því að kaupa bensín á nýjan sparneytin bíl eða 23 ára gamlan jálk. Einnig var talað um að það tæki mun minni tíma að lesta og losa skipið. Ástæðan er sú að akstursbrautirnar eru alveg beinar og það þyrfti ekki að raða í nein skot. Einnig er bíladekkið aðskilið þ.e.a.s. það er sér svæði fyrir gáma og sér svæði fyrir fólksbíla. Gert er ráð fyrir meira plássi á milli bíla og ætlast er til þess að farþegar komi og fari með bílum til að hraða lestun og losun skipsins, það myndi einnig létta á álagi á bryggjunni. Þannig að það er mun auðveldara að koma því við að fara fleiri ferðir á sama tíma, fyrir minna fjármagn.  Það þýðir eðlilega aukna flutningsgetu. Í minnisblaði sem lagt var fram í bæjarráði og síðan bæjarstjórn kom fram að kapp væri lagt á að tryggja að skipið gæti siglt að minnsta kosti 8 ferðir á dag fyrir minni kostnað en Herjólfur siglir 4-5 ferðir á dag og innan sama tímaramma, í dag.

Innan sama tíma og fyrir mun lægri kostnað getur hin nýja ferja því farið allt að 8 ferðir á dag. Í þeim getur hún flutt 520 bíla (Herjólfur getur flutt 280 bíla í 5 ferðum) og 3120 farþega (Herjólfur getur flutt 1940 farþega í 5 ferðum) gera má ráð fyrir að þessi tala verði enn hærri eða um 4400 farþegar á sumrin en þá er flutningsetan 550 farþegar í ferð. Hin nýja ferja er enn fremur hönnuð til að flytja bæði bíla og gáma og í flestum tilvikum er um blandaðan farm að ræða. Séu 5 gámar í hverri ferð komast 360 bílar á dag með nýju ferjunni en 160 bílar við sömu skilyrði í 5 ferðum Herjólfs. Miðað við áætlanir eykst flutningsgeta á hverjum degi um 86% hvað bíla varðar og  61% (127% sumar)hvað farþega varðar. Forsendur fleiri ferða er aukin hagkvæmni.

Dýpið

Það liggur í augum uppi að aukin hagkvæmni og tíðari ferðir byggja líka á því að dýpið í Landeyjahöfn sé ekki jafn mikil fyrirstaða og hefur verið. En ný ferja mun rista 2,8 metra samanborið við 4,2 metra núverandi Herjólfs. Það þýðir að það þarf að dýpka mun minna og var því slegið fram þegar verið var að dýpka í Landeyjahöfn á dögunum að það þyrfti að dýpka 16.000 rúmmetra fyrir nýjan Herjólf en 60.000 rúmmetra fyrir núverandi Herjólf. Fulltrúar Vegagerðarinnar töluðu um að mikilvægt væri að for dýpka og það væri mun auðveldara að eiga við slíkt fyrir nýja ferju jafnframt hafa þeir talað um nýjan sjálfvirkan dælubúnað sem ætti að geta haldið dýpinu nægu fyrir nýja ferju.

Ölduhæð

Hvað ölduhæð varðar er miðað við að nýja skipið eigi að geta siglt í allt að 3,5 metra ölduhæð. núverandi Herjólfur hefur viðmiðið 2,5m.

Stærra skip meiri erfiðleikar fyrir utan höfnina

Á þessum fundum með hönnuðum nýrrar ferju var mikið rætt um skrúfubúnaðinn. Talað var um að ný ferja léti mun betur að stjórn þar sem hún tæki ekki á sig jafn mikinn vind, hún væri rásfastari, hún réði betur við strauma fyrir utan Landeyjahöfn. Talað var um að því stærra sem skipið væri þeim mun meiri yrðu erfiðleikarnir fyrir utan höfnina. Það er ástæðan fyrir því að skipið er hannað eins og það var kynnt fyrir okkur.

Siglingar til Þorlákshafnar

Hvað varðar siglingar til Þorlákshafnar ef til þeirra kæmi, þá var talað um 30-40 kojur, veitingaaðstöðu, sjúkraklefa, aðstöðu fyrir fatlaða, skilrúm sem væri hægt að opna og loka eftir farþegafjölda o.s. frv. Í minnisblaðinu sem kynnt var fyrir bæjarráði kemur fram að siglingartími til Þorlákshafnar sé svipaður enda ganghraði nýja skipsins svipaður.

 

Hvað hafa bæjarfulltrúar Vestmannaeyjabæjar lagt áherslu á í samskiptum sínum við ríkisvaldið?

Flutningsgeta

Bæjarfulltrúar hafa ítrekað lýst áhyggjum af flutningsgetu hins nýja Herjólfs. Hægt er að fallast á þau rök sem að ofan hafa komið fram um að hægt sé að bregðast við aukinni flutningsþörf með fleiri ferðum. Það reynir hinsvegar á traust á ákvörðunum pólitískra fulltrúa sem fara með forræði samgangna þ.e. ríkið. Slíkt traust hefur því miður ekki verið til staðar hjá bæjarbúum í mörg ár. Sú vöntun á trausti útskýrist af því að samgöngur við Vestmannaeyjar hafa lengi verið langt frá því sem boðlegt er og viðbrögð opinberra aðila ekki í samræmi við þörfina.

Samtímavandi

Bæjarfulltrúar hafa ítrekað krafist þess að brugðist verði við samtímavanda (þar til ný ferja kemur til þjónustu) með því að leigja heppilegt skip til þjónustu í Landeyjahöfn. Öllum hefur lengi verið ljóst að Herjólfur ræður illa við aðstæður í siglingum til Landeyjahafnar.

Höfnin

Bæjarfulltrúar hafa ítrekað krafist þess að smíðatími nýs skips verði nýttur til að gera úrbætur á Landeyjahöfn með það að markmiði að þegar hið nýja skip kemur til þjónustu standist það væntingar.

 

Niðurstaða

Núverandi Herjólfur hefur siglt um 2/3 hluta ársins til Landeyjahafnar síðustu 3 ár.

Núverandi Herjólfur hefur verið að sigla allt að 5 ferðir á dag þegar siglt hefur verið til Landeyjahafnar. Flutningsgeta 280 bílar, 1940 farþegar. Ef það eru 5 gámar í hverri ferð þá 160 bíla. Innan sama tíma og fyrir mun lægri kostnað getur hin nýja ferja farið allt að 8 ferðir á dag. Í þeim getur hún flutt 520 bíla og 4400 farþega. Séu 5 gámar í hverri ferð komast 360 bílar á dag með nýju ferjunni. Þarna munar töluverðu á flutningsgetu.

Ný ferja ræður betur við siglingar til Landeyjarhafnar vegna þess að: Hún ræður við meiri ölduhæð, hún ristir ekki jafn djúpt og þarf því ekki að dýpka jafn mikið og ætti fordýpkun og fastur sjálfvirkur dælubúnaður að breyta stöðunni til hins betra. Hún ræður betur við strauma vegna nýrri, betri og tæknivæddari stýribúnaðar. Einnig er lögun skipsins þannig að það tekur ekki á sig jafn mikinn vind og lætur betur að stjórn. 

Ný ferja getur siglt til Þorlákshafnar, hún er með svipaðan ganghraða og núverandi Herjólfur, í nýrri ferju eru 30-40 kojur. Sjálfur heyri ég þó í dag setninguna ,,ég fer ekki frá/til Vestmannaeyja nema það sé siglt í Landeyjarhöfn” þetta á aðallega við um ungt fólk sem er með börn eða fólk sem er að heimsækja vini og ættingja í Eyjum, stundum heyrir maður jafnvel Eyjamenn sem búið hafa hér í áratugi tala svona. Hvernig verður þetta viðhorf ef við búum við það að Herjólfur siglir til Landeyjarhafnar 350 daga ársins, eða jafnvel þó þeir væru 300? Mun ungt fólk sætta sig við að sigla í Þorlákshöfn?

Málið er nokkuð flókið og grafalvarlegt. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar er ljóst að ný ferja muni sigla mun oftar í Landeyjarhöfn en núverandi Herjólfur. Baráttunni fyrir bættum samgöngum verður samt aldrei lokið og það þýðir ekki fyrir okkur að nýr Herjólfur sé endapunktur á samgöngumálum til framtíðar litið.

Trausti Hjaltason

bæjarfulltrúi í Vestmannaeyjum.