Af því að...

05.04.2013

Ungir sjálfstæðismenn í Vestmannaeyjum fundu sig knúna til að svara greinarhöfundi einum sem lét birta nýverið mikla áróðursgrein til höfuðs Sjálfstæðisflokknum.

 

 

Í umræddri grein minnist greinahöfundur 13x á hinn ágæta flokk Sjálfstæðisflokkinn en finnur sig hvergi knúinn til að nefna sinn eigin flokk á nafn né þau gildi eða sjónarmið sem sá flokkur stendur fyrir, álasi honum enginn….....

 

Því vildu Eyverjar í aðdraganda kosninga minna hugsanlega kjósendur á það að þeir munu í komandi alþingiskosningum kjósa Sjálfstæðisflokkinn af því að…..

 

• Sjálfstæðisflokkurinn vill lægri skatta, þannig berst Sjálfstæðisflokkurinn fyrir einstaklingum, fjölskyldum og atvinnulífinu í heild sinni með því að stöðva undir eins þá skattpíningu sem vinstri stjórnin hefur innleitt og er vinnuletjandi, menntaletjandi og síðast en ekki síst blása slíkar aðgerðir byr í vængi svartrar atvinnustarfsemi. Lækkun skatta mun auka umsvif hagkerfisins. Greinarhöfundur er minntur á að skattar eru hlutfallsreiknaðir, þeir sem hafa hærri tekjur greiða hærri skatt.

 

• Sjálfstæðisflokkurinn vill raunhæfa endurskipulagningu á húsnæðislánamarkaðnum. Fólk fái möguleika á að niðurgreiða höfuðstól húsnæðislána með skattalækkunum og möguleika á að nýta óskattlagðan séreignarsparnað í niðurgreiðslu höfuðstóls. Einnig munu einstaklingar hafa meira á milli handanna til að greiða niður íbúðalán sín hafi þau hærri ráðstöfunartekjur í kjölfar lækkaðs tekjuskatts. Sjálfstæðisflokkurinn vill einnig afnema stimpilgjöld.

 

• Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst yfir vilja til að aðildarviðræðum við ESB verði tafarlaust hætt og ekki teknar upp aftur nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.. Enn eitt dæmið um óforskammaða forgangsröðun í efnahagsmálum vinstri stjórnar að eyða milljarði/-um í aðildarviðræður við ESB á meðan heilbrigðiskerfið er á heljarþröm og okkur blæðir hæfu heilbrigðisstarfsfólki til nágrannalandanna.

 

• Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki, ólíkt vinstri stjórninni, að skipa með öllu vanhæfa nefnd sem var tilbúin að gefa út óútfylltan tékka til handa stórþjóðum sem með ægivaldi Evrópusambandsins og með Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sér þétt að baki höfðu í hótunum við 300.000 manna eyríki í Atlantshafinu. Sjálfstæðisflokkurinn vildi þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn, sú tillaga var felld en blessunarlega tekin upp af forseta vorum.

 

Greinarhöfundar óska þess að kosningabaráttan verði lífleg, skemmtileg og sanngjörn en fyrst og fremst málefnaleg.

 

Áfram XD, áfram Ísland!

Stjórn Eyverja, félags ungra Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum